Bjarni Helgason, stjörnublaðamaður Morgbunlaðsins skrifar áhugaverðan Bakvörð í blað dagsins þar sem hann rifjar upp einn frægasta landsleik sögunnar.
Bjarni setur leikinn í samhengi við leik liðsins á þriðjudag þegar Ísland gerði 1-1 jafntefli við Albaníu á útivelli.
Ísland og Sviss gerðu 4-4 jafntefli árið 2013 í sögufrægum leik þar sem Jóhann Berg Guðmundsson skoraði eina fallegustu þrennu í sögu fótboltans.
„6. september árið 2013 varð ákveðinn viðsnúningur hjá íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu í Bern í Sviss. Ég man ágætlega eftir þessum degi, eða meira leiknum sem fór fram það kvöld. Sviss og Ísland áttust við í undankeppni HM 2014. Ísland komst yfir í leiknum með marki frá Jóhanni Berg Guðmundssyni strax á 3. mínútu en Svissararnir voru fljótir að jafna metin og eftir 54 mínútna leik var staðan orðin 4:1 fyrir Sviss,“ skrifar Bjarni og rifjar svo upp hvernig íslenska liðið jafnaði metinn en Jóhann skoraði þrennu í leiknum.
Mikael Neville Anderson, stundum kallaður Iron Mæk, jafnaði leikinn í uppbótartíma á þriðjudag.
„Jöfnunarmark Mikaels Andersonar á þriðjudaginn gegn Albaníu í Tirana minnti mig aðeins á jöfnunarmark Jóhanns Berg,“ skrifar Bjarni.
„Það er orðið ansi langt síðan maður sá leikmenn íslenska karlalandsliðsins fagna marki jafn innilega og þeir gerðu á þriðjudaginn. Hvort þetta mark verði jafn sögulegt og markið hans Jóhanns Berg var, þarf svo bara að koma í ljós,“ skrifar Bjarni og heldur því fram að Arnar sé á réttri leið með landsliðið.
„Það hefur verið ákveðinn mótvindur hjá íslenska liðinu síðan Arnar Þór tók við en núna virðist loksins vera smá meðvindur. Það voru allavega klár batamerki á spilamennsku liðsins gegn Albaníu og maður gerir sér vonir um það, þegar liðið verður „fullmannað“ á nýjan leik, að hagstæð úrslit gætu farið að detta í hús;“ segir Bjarni að endingu í Morgunblaðinu.