Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu gerði í kvöld 1-1 jafntefli á útivelli gegn Albaníu í Þjóðadeild UEFA með hetjulegri baráttu eftir að hafa spilað nánast allan leikinn einum færri.
Mikael Neville Anderson átti skínandi innkomu í síðari hálfleik í leiknum og skoraði jöfnunarmark Íslands í uppbótartíma.
,,Ég er mjög ánægður,“ sagði Mikael Neville í viðtali við Viaplay eftir leik kvöldsins. ,, Við áttum þetta skilið, ég var frekar óheppinn fyrr í leiknum en langaði að skora, það var langt síðan síðast.“
Hann segist afar ánægður með frammistöðu liðsins, hún var að hans sögn: ,,geggjuð.“ Þá hafi hann einsett sér fyrir leik að koma inn af krafti.
,,Ég hafði engu að tapa. Ég ætlaði að sýna eitthvað í dag þegar að ég kom inn á og gerði það. En liðið er fyrst og fremst með frábæra frammistöðu hér í kvöld.“
Hann segir það skipta miklu máli að fá inn reynslumeiri leikmenn í hópinn eftir þónokkra fjarveru.
,,Geggjað að fá þessa reynslumeiri leikmenn inn. Þeir gefa mikið af sér og hjálpa öllum mikið.“