Í hlaðvarpsþættinum Þungavigtin í dag er því haldið fram að Heimir Hallgrímsson hafi verið klár í að taka við A-landsliði karla í sumar.
Í þættinum er einnig fullyrt að Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ hafi þá gert munnlegt samkomulag við Heimi en hætt við á síðustu stundu.
„Ég hef mjög öruggar heimildir fyrir því að Vanda hafi verið búin að gera munnlegt samkomulag við Heimir Hallgrímsson í byrjumn júní. Heimir hafi verið með starfsliðið klárt,“ segir Mikael Nikulásson í Þungavigtinni í dag.
Íslenska liðið náði ágætis úrslitum undir stjórn Arnars Viðarssonar í júní. „Svo gerðu liðið þrjú jafntefli í júní og Vanda þorði ekki að taka þetta, hún hringdi í Heimi og hætti við. Hann var búin að samþykja að taka við A-landsliði karla og var með starfsliðið klárt. Þetta heyrði ég samkvæmt mjög góðum heimildum,“ sagði Mikael.
Heimir Hallgrímsson er í dag landsliðsþjálfari Jamaíka en hann stýrir liðinu í fyrsta sinn annað kvöld gegn Argentínu.
433.is hefur sent fyrirspurn til Vöndu vegna málsins en Heimir Hallgrímsson var landsliðsþjálfari Íslands frá 2013 til 2018.