Lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar fór fram í dag. Það var spenna fram á síðustu mínúturnar.
Manchester City var stigi á undan Liverpool fyrir leiki dagsins. Það leit ekki vel út fyrir liðið lengi vel í dag. City lenti undir gegn Aston Villa á 37. mínútu þegar Matty Cash skoraði. Þegar tæpar 20 mínútur lifðu leiks tvöfaldaði Philippe Coutinho svo forystu Villa. City-liðið er þó ansi magnað og minnkaði Ilkay Gundogan muninn á 76. mínútu. Aðeins tveimur mínútum síðar voru þeir búnir að jafna þegar Rodri kom boltanum í netið. Þremur mínútum eftir það skoraði Gundogan svo sitt annað mark og kom City í 3-2.
Liverpool lenti líka í honum kröppum í dag gegn Wolves. Liðið lenti undir strax á 3. mínútu þegar Pedro Neto skoraði. Sadio Mane jafnaði fyrir Liverpool á 24. mínútu leiksins og staðan var 1-1 í hálfleik. Liverpool leitaði að markinu sem margir héldu að gæti orðið það sem tryggði þeim titilinn miðað við stöðuna hjá City lengi vel. Liðið vann það á 84. mínútu þegar Mohamed Salah skoraði. Andy Robertson innsiglaði svo 3-1 sigur Liverpool í lok leiks.
Úrslitin þýða að Manchester City vinnur deildina með einu stigi og ver titil sinn. Þetta er þeirra fjórði Englandsmeistaratitill á fimm árum.
Tottenham fer í Meistaradeild Evrópu eftir stórsigur á Norwich. Liðið leiddi 0-2 í hálfleik með mörkum frá Dejan Kulusevski og Harry Kane. Kulusevski bætti við þriðja markinu á 64. mínútu og Heung-Min Son því fjórða skömmu síðar. Son gerði svo fimmta markið á 76. mínútu.
Aðeins Arsenal gat náð Tottenham fyrir leik dagsins en 5-1 sigur á Everton dugði ekki til. Arsenal komst yfir með marki Gabriel Martinelli af vítapunktinum á 27. mínútu. Eddie Nketiah tvöfaldaði forskotið skömmu síðar en rétt fyrir leikhlé minnkaði Donny van de Beek muninn fyrir Everton. Cedric Soares, Gabriel og Martin Ödegaard bættu við þremur mörkum fyrir Arsenal í seinni hálfleik. Liðið hafnar í fimmta sæti og fer í Evrópudeildina.
Manchester United fer í Evrópudeildina þrátt fyrir 1-0 tap gegn Crystal Palace í dag. Wilfried Zaha skoraði eina mark leiksins. Það er vegna þess að West Ham tapaði á sama tíma gegn Brighton, 3-1. Michail Antonio kom West Ham yfir en Joel Veltman, Pascal Gross og Danny Welbeck svöruðu fyrir Brighton. West Ham fer því í Sambandsdeildina.
Burnley er fallið úr ensku úrvalsdeildinni eftir tap gegn Newcastle í dag. Callum Wilson kom Newcastle í 0-2 áður en Maxwel Cornet minnkaði muninn. Leeds vann á sama tíma 1-2 sigur gegn Brentford og heldur sér því uppi. Pahinha og Jack Harrison skoruðu mörk liðsins en Sergi Canos gerði mark Brentford.
Aðrir leikir í dag skiptu litlu máli upp á stöðuna í deildinni. Chelsea vann 2-1 sigur á Watford. Kai Havertz kom liðinu yfir á 11. mínútu. Dan Gosling jafnaði muninn fyrir Watford á 87. mínútu en Ross Barkley skoraði sigurmark Chelsea í uppbótartíma. Chelsea hafnar í þriðja sæti deildarinnar.
Leicester vann 4-1 sigur á Southampton. Ayoze gerði tvö mörk fyrir Leicester en James Maddison og Jamie Vardy hin. James Ward-Prowse skoraði mark Southampton. Leicester hafnar í áttunda sæti deildarinnar er Southampton í því fimmtánda.