Rætt var um réttarhöldin milli Coleen Rooney og Rebekah Vardy í í íþróttavikunni með Benna Bó sem er á dagskrá Hringbrautar alla föstudaga. Kjartan Atli Kjartansson var gestur samt Herði Snævari Jónssyni, íþróttastjóra Torgs.
Þeir félagar voru sammála að réttarhöldin væru sorgleg en jafnframt stórkostleg skemmtun. „Höddi er sérfræðingurinn í þessu máli. Einu fréttirnar sem ég les af þessu eru fréttirnar hans Hödda,“ sagði Kjartan léttur.
„þetta er sápuópera í beinni af fólki sem á alltof mikinn pening. Sko eftir að hafa fylgst vel með þessu þá er augljóst að Rebekah Vardy var að leka upplýsingum en ég átta mig ekki á því af hverju hún er að eltast við einhverjar milljónir.
Gæti hljómað fáránlega en þau eiga einhverja milljarða. Að nenna að vera leka í The Sun fyrir tíu þúsund pund hér og tíu þúsund pund þar er mér hulin ráðgáta. Ég átta mig ekki á hvatanum,“ sagði Hörður sem fór aðeins yfir sögulínuna í þættinum.
„Sem íþróttafréttanörd einhverskonar þá finnst mér gaman þegar koma upp mál sem hafa aldrei komið upp áður og munu aldrei koma aftur. Þetta er algjörlega einstakt mál. Að eiginkonur tveggja frábærra leikmanna og fyrrum vinkonur séu í svona,“ sagði Kjartan.
„Þegar bresku blöðin fá svona mál upp í hendurnar, þó þau séu umdeild, eru blöðin skemmtikraftar. Hvernig enskan er nýtt til að gera góðar fyrirsagnir er stórkostlegt,“ sagði Hörður.
„Það er ótrúlega fyndið því þetta er sama tungumálið á Bretlandi og Bandaríkjunum og munurinn á fjölmiðlunum hvernig þeir nota tungumálið, hvað maður sér hvað Bretinn er lúmskur að gera skemmtilegar fyrirsagnir á meðan bandaríkin er einfaldari. Oft er þetta dramatískar lýsingar og fangar svolítið þjóðarsálina.“
Nánari umræðu má sjá hér fyrir neðan.