Arnar Viðarssyni landsliðsþjálfara er heimilt að velja Aron Einar Gunnarsson í næsta landsliðshóp sinn en KSÍ undirbýr nú regluverk í kringum starf sambandsins. Frá þessu er sagt í Fréttablaðinu í dag.
„Eins og staðan er núna þá eru engar reglur sem banna landsliðsþjálfara að velja ákveðna leikmenn,“ segir Vanda, aðspurð hvort Arnar gæti valið Aron í samtali við Fréttablaðið.
Aron og Eggert Gunnþór Jónsson voru síðasta haust kærðir fyrir nauðgun. Íslenska kona sakar mennina um að hafa nauðgað sér í Kaupmannahöfn árið 2010. Lögreglan hafði í febrúar lokið rannsókn málsins og í síðustu viku var það héraðssaksóknari sem felldi málið niður.
Aron hefur frá því að málið kom upp ekki verið í íslenska landsliðshópnum en ÍSÍ hefur undanfarið unnið að reglum í því hvernig taka skal á svona málum þegar þau koma upp. Slíkar reglur áttu að vera tilbúnar í mars en hafa ekki skilað sér.
„Vonandi klárast þessi vinna sem allra fyrst. Þar sem þetta hefur dregist hefur KSÍ farið af stað í að útbúa bráðabirgðareglur sem eiga að verða tilbúnar á næstu vikum,“ segir Vanda við Fréttablaðið en Aron hefur á ferli sínum leikið 97 landsleiki.
Þá segir Vanda að hún hafi ekki átt samtal við Aron Einar eftir að málið kom upp.