Newcastle United tekur á móti Arsenal í næst síðustu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld í afar mikilvægum leik fyrir skytturnar í Norður-Lundúnum. Arsenal hefur ekki efni á að misstíga sig og ekki bætir það úr skáka að óvíst er hvort tveir af aðal miðvörðum liðsins geti tekið þátt í leiknum.
Tottenham gerði sitt og vann 1-0 sigur á Burnley í gær og náði með því að setja pressuna á Arsenal í baráttunni um Meistaradeildarsæti. Tottenham er sem stendur í 4. sæti deildarinnar með 68 stig, tveimur stigum meira en Arsenal sem á leik kvöldsins til góða og þarf sigur.
Ben White og Gabriel, miðverðir liðsins eru tæpir fyrir leik kvöldsins vegna meiðsla og því óljóst hvernig varnarlína Arsenal mun líta út í kvöld.
Arsenal á svo leik á heimavelli gegn Everton um næstu helgi í síðustu umferð deildarinnar á meðan að Tottenham mæti Norwich sem er fallið úr deildinni.