Meiðyrðamál Rebekuh Vardy gegn Coleen Rooney er nú fyrir dómstólum og undanfarna daga hefur það verið tekið fyrir og það mun einnig verða gert næstu daga. Verjandi Rooney sótti hart að Rebekuh Vardy í málinu, sakaði hana meðal annars um lygar og lagði fyrir hana nokkur mál sem hann vill meina að Vardy tengist beint en hún þverneitar.
Málið tengist inn í enska boltann en Jamie Vardy, framherji Leicester City er eiginmaður Rebekuh og Wayne Rooney, knattspyrnustjóri Derby County og fyrrum leikmaður Manchester United er eiginmaður Coleenar.
Coleen Rooney hefur áður sakað Vardy um að leka upplýsingum um einkalíf Rooney-fjölskyldunnar í fjölmiðilinn The Sun og upplegg verjanda Rooney í dag var að koma með fleiri sambærileg mál til sögunnar, mál sem hann segir tengjast því að Rebekah Vardy eða umboðsmaður hennar fyrir tilstilli Vardy, hafi lekið upplýsingum um til fjölmiðla gegn greiðslu.
Coleen sat fyrir svörum í morgun en þar sagði hún meðal annars. „ÉG vildi ekki setja pressu á hann fyrr en ég þurfti þess. Þess vegna gerði ég þetta svona,“ sagði Coleen um ástæðu þess að hún sagði ekki Wayne frá því hvað hún væri að gera til að góma aðgang Vardy.
Coleen lét aðeins aðgang Vardy sjá færslur frá sér á Instagram og þaðan láku allar sögurnar í The Sun.
„Ég vildi gera þetta sjálf án þess að segja neinum. Það var erfitt að halda þessu leyndu en ég varð að gera það til að finna út úr þessu.“
Aðgangur Vardy sá sögurnar sem Coleen skáldaði og þaðan rötuðu sögurnar í The Sun. Vardy hafnar því að hafa gert þetta en segir fjölda fólks hafa aðgang að Instagram síðu hennar.