Hákon Arnar Haraldsson færði FC Kaupmannahöfn hársbreidd frá titlinum er hann skoraði fyrsta markið í 2-0 útsigri gegn Randers í dönsku úrvalsdeild karla í dag. Ísak Bergmann Jóhannesson var einnig í byrjunarliði FCK.
Hákon kom gestunum í Kaupmannahöfn yfir eftir klukkutíma leik með glæsilegu marki og Khouma Babacar innsiglaði svo sigurinn í uppbótartíma.
Ísak Bergmann fór af velli á 68. mínútu en Hákon kom af velli þegar átta mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.
FCK er með sex stiga forskot á Midtjylland á toppi deildarinnar þegar Midtjylland á tvo leiki eftir en FCK einn. FCK er þar að auki með mun betri markatölu og því þarf Midtjylland á kraftaverki að halda til að landa danska meistaratitlinum í ár.