AC Milan verða Ítalíumeistarar í fótbolta í fyrsta sinn í 11 ár ef liðið vinnur Sassuolo í lokaumferð ítölsku úrvalsdeildarinnar næsta sunnudag.
Þetta varð ljóst eftir 2-0 sigur Milan á Atalanta á San Siro vellinum í dag. Markalaust var í hálfleik en Rafael Leao og Theo Hernandez skoruðu mörk heimamanna í síðari hálfleik.
Inter Milan þurfti að vinna Cagliari í kvöld til að halda í við granna sína í titilbaráttunni og tókst það vel. Matteo Darmian skoraði eitt og Lautaro Martinez tvö í 3-1 sigri.
Inter Milan eru ríkjandi Ítalíumeistarar en sitja nú í öðru sæti, tveimur stigum á eftir grönnum sínum í Milan þegar ein umferð er eftir.