Son Heung-min, sóknarmaður Tottenham, segist frekar vilja landa Meistaradeildarsæti með liðsfélögum sínum á tímabilinu en að vinna gullskó ensku úrvalsdeildarinnar.
Suður-Kóreumaðurinn hefur skorað 21 mark í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni, aðeins einu marki minna en Mohamed Salah, leikmaður Liverpool þegar tvær umferðir eru eftir.
Totttenham er í 5. sæti deildarinnar, einu stigi á eftir Arsenal. „Það væri gott en það er mikilvægt fyrir okkur að ná fjórða sætinu,“ sagði Son. Son hefur skorað 10 mörk í síðustu átta leikjum sínum, þar á meðal þrennu á móti Aston Villa.
Aðspurður hvort hann myndi skipta út markaskorun fyrir Meistaradeildarsæti sagði hann: „Já. 100%. Auðvitað er gott að vera í baráttunni en ég hef sagt það nokkrum sinnum að það er mikilvægast að landa fjórða sætinu.“