Venezia féll í dag úr ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta eftir 1-1 jafntefli gegn Roma á útivelli. Venezia hefði þurft að vinna í dag til að eiga einhvern möguleika á að halda sæti sínu í deildinni en allt kom fyrir ekki.
David Okereke kom gestunum í forystu strax á fyrstu mínútu leiks en þeir áttu á brattann að sækja eftir að Sofian Kiyine var rekinn af velli á 32. mínútu. Eldor Shomurodov tókst að jafna metin fyrir Roma fimmtán mínútum fyrir leikslok og þar við sat.
Nokkrir Íslendingar eru á mála hjá Venezia en þeir hafa lítið komið við sögu á tímabilinu. Hvorki Arnór Sigurðsson né Jakob Franz Pálsson voru í leikmannahóp Venezia í kvöld.
Óttar Magnús Karlsson og Bjarki Steinn Bjarkason eru einnig samningsbundnir Venezia en þeir eru á láni út tímabilið. Óttar hefur verið að gera það gott með Oakland Roots í Bandaríkjunum en Bjarki hefur verið á láni hjá ítalska C-deildarliðinu Catanzaro síðan í janúar.