Cristiano Ronaldo, leikmaður Manchester United sást á dögunum í almenningsgarði þar sem hann var ásamt myndatökuteymi að taka upp nýja auglýsingu fyrir íþróttavöruframleiðandann NIKE. Mikil öryggisgæsla var í kringum leikmanninn sjálfan en það sama mátti ekki segja um tvífara hans sem voru einnig hluti af upptökuferlinu.
Þessu varpa ljósmyndir sem teknar voru á staðnum ljósi á en Ronaldo er náttúrulega ein af skærustu stjörnum knattspyrnuheimsins og því ekkert athugavert við að öryggisgæsla í kringum hann sé mikil.
Tvífarar hans voru eins klæddir og skörtuðu sömu hárgreiðslu og ljóst að þeir áttu að taka að sér ákveðna þætti í upptöku auglýsingarinnar, þætti sem ekki þótti áhættunar virði að láta Ronaldo gera sjálfan.