Þremur leikjum er nýlokið í ensku úrvalsdeildinni.
Arsenal tók á móti Leeds á Emirates-vellinum.
Eddie Nketiah kom Arsenal yfir strax á 5. mínútu eftir skelfileg mistök Illain Meslier. Fimm mínútum síðar bætti Nketiah við sínu öðru marki eftir glæsilegan undirbúning Gabriel Martinelli.
Arsenal stjórnaði leiknum algjörlega og ekki skánaði staðan fyrir Leeds þegar Luke Ayling fékk beint rautt spjald á 27. mínútu fyrir grófa tæklingu á Martinelli. Heimamönnum tókst þó ekki að bæta við marki fyrir lok fyrri hálfleiks.
Seinni hálfleikurinn var framan af svipaður. Arsenal stjórnaði leiknum. Á 66. mínútu minnkaði Diego Llorente hins vegar muninn með marki eftir hornspyrnu. Um fyrstu marktilraun Leeds í leiknum var að ræða.
Það kom töluverður skjálfti í lið Arsenal við þetta og ógnuðu gestirnir nokkrum sinnum í lok leiks. Heimamenn sigldu þó heim gríðarlega mikilvægum 2-1 sigri.
Arsenal er í fjórða sæti deildarinnar, nú fjórum stigum á undan Tottenham og stigi á eftir Chelsea. Arsenal og Tottenham mætast á fimmtudag. Leeds er í átjánda sæti með 35 stig, jafnmörg og Burnley en með mun lakari markatölu.
Everton heimsótti Leicester og vann gífurlega mikilvægan sigur.
Vitalii Mykolenko kom gestunum yfir á 6. mínútu. Patson Daka jafnaði þó metin fyrir Leicester aðeins fimm mínútum síðar.
Eftir hálftíma leik skoraði Mason Holgate svo það sem reyndist sigurmark leiksins. Lokatölur 1-2.
Everton er komið upp í sextánda sæti með 35 stig, stigi á undan Leeds og Burnley. Leicester er í fjórtánda sæti með 42 stig.
Loks heimsótti West Ham Norwich og rúllaði yfir heimamenn.
Said Benrahma kom Hömrunum yfir á 12. mínútu. Michail Antonio tvöfaldaði forskot þeirra eftir hálftíma leik. Skömmu fyrir leikhlé skoraði Benrahma svo aftur og gerði út um leikinn.
West Ham bætti við einu marki í seinni hálfleik. Það gerði Manuel Lanzini af vítapunktinum. Lokatölur 0-4.
West Ham er með 55 stig í sjöunda sæti, þremur stigum á eftir Manchester United og á leik til góða. Norwich er þegar fallið úr deild þeirra bestu.