Grótta fór illa með Vestra á heimavelli sínum í Lengjudeild karla í dag. Um fyrsta leik liðanna í deildinni var að ræða.
Heimamenn fóru langt með það að klára leikinn á fyrstu 20 mínútunum eða svo. Luke Rae kom þeim yfir á 5. mínútu áður en Kristófer Orri Pétursson bætti við marki aðeins mínútu síðar.
Kjartan Kári Halldórsson skoraði svo þriðja mark Gróttu á 22. mínútu. Staðan í hálfleik var 3-0.
Seinni hálfleikur var rólegur framan af. Gestirnir voru ekki líklegir til að minnka muninn á meðan heimamenn voru sáttir með stöðuna.
Þegar tæpar tíu mínútur lifðu leiks skoraði Rae sitt annað mark. Ef það var einhver vafi á hvert stigin færu þá var hann sleginn af þarna.
Sigurður Hrannar Þorsteinsson skoraði svo fimmta og síðasta mark leiksins fyrir Gróttu fimm mínútum síðar. Lokatölur 5-0. Afar sterk byrjun Gróttu en slæmt fyrir nýjan þjálfara Vestra, Gunnar Heiðar Þorvaldsson, að fá skell í fyrsta leik.