Liverpool tók á móti Tottenham í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Um afar mikilvægan leik var að ræða fyrir bæði lið.
Heimamenn voru meira með boltann í fyrri hálfleik og gerðu sig líklega en gestirnir sköpuðu einnig hættuleg færi. Markalaust var þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Á 56. mínútu kom Heung-Min Son Tottenham yfir eftir undirbúning Harry Kane og Ryan Sessegnon.
Þegar stundarfjórðungur lifði leiks jafnaði Luis Diaz leikinn. Skot hans fór af leikmanni Tottenham og í netið.
Heimamenn gerðu hvað þeir gátu til að finna sigurmark en fundu ekki. Þá ógnuðu gestirnir sigurmarki seint í leiknum.
Lokatölur urðu 1-1.
Liverpool er á toppi deildarinnar með 83 stig, jafnmörg stig og Manchester City en örlítið betri markatölu. City á þó leik til góða. Þeir mæta Newcastle á heimavelli á morgun.
Tottenham er með 62 stig, stigi minna en Arsenal, sem þar að auki á leik til góða. Lærisveinar Antonio Conte þurfa því að vonast eftir aðstoð frá Leeds, sem mætir Arsenal á morgun.