Newcastle tók á móti Manchester United í hörkuleik í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.
Gestirnir voru arfaslappir í fyrri hálfleik og leiddi Newcastle sanngjarnt í leikhléi með marki frá Allan Saint-Maximin. Markið skoraði hann með frábæru skoti við vítateigslínu.
Það vantaði áfram kraft í lið Man Utd framan af í seinni hálfleik. Heimamenn voru áfram sterkari aðilinn.
Edinson Cavani jafnaði þó metin með marki á 71. mínútu og við það hrukku lærisveinar Ralf Rangnick aðeins í gang og virkuðu um skeið líklegri til að stela sigrinum.
Newcastle tók hins vegar aftur yfir leikinn undir restina og hefði klárlega getað skorað sigurmarkið. Áttu þeir til að mynda skot í stöng auk þess sem David De Gea varði eitt sinn frábærlega í marki Man Utd.
Lokatölur í kvöld urðu 1-1. Man Utd er í sjöunda sæti deildarinnar með 28 stig. Newcastle er í nítjánda sæti með 11 stig. Liðið hefur aðeins unnið einn leik á leiktíðinni.