Enska ungstirnið, Jude Bellingham, segist hafa fengið tvær sprautur við kórónuveirunni – ásamt örvunarskammti – og hvetur aðra fótboltamenn til að gera slíkt hið sama.
Hinn 18 ára gamli Bellingham leikur með Borussia Dortmund á Þýskalandi en 94% leikmanna liðsins hafa hlotið bólusetningu við Covid-19. Bellingham sagði í samtali við Sally Nugent á BBC að fótboltamenn fái pláss til að tjá sig.
„Ég hef fengið tvær sprautur og örvunarskammt, bara til öryggis. Ég vil ekki smita neinn í fjölskyldunni eða missa af leikjum sjálfur,“ sagði hann. „Það er ekki mitt að sitja hér og segja að allir þurfi að vera bólusettir. Það er persónulegt val hvers og eins… augljóslega vil ég að allir séu hraustir, svo ég mæli líklega með því.“
Mikið hefur verið rætt um bólusetningar á meðal fótboltamanna vegna útbreiðslu kórónuveirunnar í efstu deildum á Englandi en fjöldi smita olli því að leikjum var frestað um síðustu helgi.
Fótboltafélög á Englandi ákváðu fyrr í dag að reyna að halda leikjum gangandi yfir jólatörnina.
Bólusetningartíðni er hærri á Þýskalandi en á Englandi en um fjórðungur leikmanna á Englandi segjast ekki ætla að þiggja bólusetningu við veirunni.