Afturelding er komið upp í efstu deild kvenna en liðið tryggði sér sæti í deildinni í gær með því að vinna FH 4-0. Bæði Afturelding og FH gátu komist upp fyrir þennan síðasta leik tímabilsins, stúlkurnar í Mosfellsbæ höfðu betur og skildu FH-inga eftir í sárum.
Að leik loknum var kveikt á flugeldum fyrir utan íþróttamiðstöðina að Varmá. Mikið var fagnað en mörgum íbúum bæjarins blöskraði að heyra í flugeldum á þessum árstíma.
Afturelding að skjóta upp flugeldum því þau unnu fótboltaleik. Ekki bara ólöglegt heldur gríðarlega mikil vanvirðing við dýrin í umhverfinu sem geta lent í slysum vegna hræðslu. Það er ekki tuð þegar bókstafleg líf eru í húfi. pic.twitter.com/iPmBkfxuSn
— Sandra Ósk Jóhannsdóttir (@sandra_johanns) September 9, 2021
Dýrum var brugðið vegna þess og hlupu tveir hestar í burtu frá eiganda sínum vegna flugeldanna sem skotið var á loft. Mikil umræða hefur skapast um málið á íbúasíðu Mosfellsbæjar. „Það er verið að leita í mosó að hestum sem trylltust eftir þessa flugeldasýningu,“ skrifar Guðrún Þorkelsdóttir á síðuna. Fundust hestarnir í morgun eftir mikla leit.
„Erum að leita að tveimur hestum sem fældust við flugeldana. Þeir eru bundnir saman, fældust í mosfellsdal og hurfu út í myrkrið,“ skrifar Guðrún einnig.
Margir mótmæla því að þetta hafi verið ósiðlegt að skjóta upp flugeldum. „Eitt er víst það er nóg af tuðurum i mosó. Vá,“ skrifar Viðar Þór.
Sandra Ósk Jóhannsdóttir segir að einn hundur hafi einnig hlaupið á brott þegar flugeldarnir fóru á loft. „Afturelding að skjóta upp flugeldum því þau unnu fótboltaleik. Ekki bara ólöglegt heldur gríðarlega mikil vanvirðing við dýrin í umhverfinu sem geta lent í slysum vegna hræðslu. Það er ekki tuð þegar bókstafleg líf eru í húfi,“ skrifar Sandra.