Stjórn KSÍ mun halda fundi sínu áfram á morgun, þetta kemur fram á Twitter síðu sambandsins. Stjórnin hefur fundað frá hádegi.
Engin niðurstaða hefur fengist í afstöðu stjórnar varðandi næstu skref eftir fréttir gærdagsins.
Til upplýsingar: Stjórn KSÍ hefur fundað frá kl. 12 í dag, laugardag. Fundinum verður framhaldið á morgun, sunnudag.
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) August 28, 2021
Guðni Bergsson formaður KSÍ hefur fengið að finna fyrir því á samfélagsmiðlum eftir að Þórhildur Gyða Arnardóttir steig fram í fréttum RÚV í gær og greindi frá því að árið 2017 hafi þekktur landsliðsmaður áreitt hana kynferðislega og ráðist svo á hana, og sagði að Guðna og KSÍ hafi verið vel kunnugt um málið.
Fréttastofa RÚV ræddi aftur við Guðna í gær í ljósi frásagnar Þórhildar og spurði hvernig stæði á því að hann hafi í gær sagt að engin tilkynning hafi borist sambandinu um kynferðisbrot landsliðsmanna.
Stjórnin hefur setið í tæpa sjö klukkutíma á fundi í dag án þess að komast að niðurstöðu um næstu skref. Samkvæmt heimildum DV er hluti stjórnar sem vill sjá Guðna segja af sér.
Á Vísi kemur fram að Þórhildur hafi fengið nokkrar milljónir í sinn vasa í miskabætur, önnur kona flaug til útlanda með Þórhildi þar sem þær hittu umræddan landsliðsmanns í knattspyrnu. Leikmaðurinn baðst afsökunar og borgaði þeim miskabætur vegna málsins.