Manchester United hefur staðfest komu Cristiano Ronaldo til félagsins frá Juventus. Þegar allir vöknuðu í morgun var talið að Ronaldo væri á leið til Manchester City.
United lét til skara skríða og er fullyrt að Sir Alex Ferguson hafi tekið upp tólið og hringt í Ronaldo.
„Manchester United tilkynnir með ánægju samkomulag við Juventus um kaup á Cristiano Ronaldo ef samkomulag næst um kaup og kjör, atvinnuleyfi og læknisskoðun,“ segir í yfirlýsingu félagsins.
Cristiano hefur í fimm skipti verið kjörinn besti leikmaður í heimi, hann hefur unnið yfir 30 titla á ferli sínum.
Ronaldo hefur fimm sinnum unnið Meistaradeildina, sjö sinnum deildarmeistari á Englandi, Spáni og Ítalíu.
Welcome 𝗵𝗼𝗺𝗲, @Cristiano 🔴#MUFC | #Ronaldo
— Manchester United (@ManUtd) August 27, 2021
Manchester United mun borga 15 milljónir punda fyrir Cristiano Ronaldo frá Juventus, félagið greiðir svo mögulega 8 milljónir í bónusa. The Athletic segir frá.
Ronaldo er 36 ára gamall og vildi burt frá Juventus, eftir 12 ára dvöl hjá Real Madrid og Juventus er Ronaldo aftur á leið til United.
Ronaldo mun gera tveggja ára samning við United en The Athletic segir engar líkur á að United láti Edinson Cavani fara vegna þess.