Wayne Rooney efast um að sinn gamli samherji Cristiano Ronaldo muni ganga í raðir Manchester City. Ronaldo hefur samið um kaup og kjör við Manchester City, Jorge Mendes umboðsmaður hans reynir nú að losa hann frá Juventus. AS á Spáni segir frá.
Ronaldo vill fara frá Juventus áður en félagaskiptaglugginn lokar í næstu viku, samtalið milli City og Juventus er ekki hafið. Juventus vill 30 milljónir evra fyrir Ronaldo.
City er tilbúið að gera tveggja ára samning við Ronaldo en félagið er ekki tilbúið að borga krónu fyrir hann.
Ronaldo er goðsögn í augum stuðningsmanna Manchester United, ljóst er að þeir ættu erfitt með að fyrirgefa honum það að taka skrefið yfir til CIty.
„Ég hef mínar efasemdir,“ sagði Rooney þegar hann var spurður um það hvort Ronaldo væri á leið til City.
„Cristiano hefur skilið eftir sig frábært orðspor hjá United, ég held að hann fari ekki til City.“
Rooney tók þá dæmi um United goðsagnir sem hefðu farið þessa leið. „Þú veist aldrei í fótbolta, í fortíðinni þá fór Peter Schmeichel til City og Andy Cole líka. Mark Hughes var svo stjóri þeirra.“