Það vantar ekki kjaftasögurnar um einn besta knattspyrnumann sögunnar, Lionel Messi þessa dagana. Messi er án félags eftir að Barcelona varð að láta hann fara.
Eins og frægt er var Messi að gera nýjan samning við Barcelona þegar spænska deildin kom í veg fyrir það, fjárhagur Barcelona er slæmur og getur félagið ekki aukið kostnað hjá sér.
Búist er við því að Messi fari til PSG í Frakklandi og er það afar líklegt, hinar ýmsu kjaftasögur eru hins vegar í gangi.
Þannig kemur fram að Barcelona hafi í gær reynt að sannfæra Messi á nýjan leik en það verður að teljast ólíklegt að fjárhagur félagsins hafi batnað mikið á síðustu tveimur dögum.
Samkvæmt fréttum hefur Manchester United áhuga á því að krækja í Messi en ekkert hefur verið staðfest í þeim efnum.
Messi slakar nú á í Barcelona en búist er við því að hann taki ákvörðun um að ganga í raðir PSG síðar í þessari viku.