Jack Wilshere fyrrverandi leikmaður Arsenal og West Ham United sagði á dögunum að ef Man City fengi Harry Kane í sínar raðir að þá væri baráttan um Englandsmeistaratitilinn búin áður en hún hefst.
Wilshere spáði fyrir að liðin sem enduðu í fjórum efstu sætum deildarinnar í fyrra myndu enda á sama stað á næsta tímabili. Hann sagði jafnframt að Arsenal ætti möguleika á Evrópusæti.
„Man City taka þetta,“ sagði Wilshere í samtali við TalkSPORT. „Ég vil frekar að Man Utd vinni en ég held að þeir endi í 2. sæti. Chelsea verður í 3., Liverpool 4., Arsenal 5. og Leicester 6.“
Wilshere talaði um hversu erfitt það væri að spila gegn Man City. „Ég spilaði oft gegn City og það er hræðilegt, það er skelfilegt. Þú nærð ekki boltanum af þeim. Pep fær þá til að spila þessar stuttu sendingar. Ef þeir fá Harry Kane líka að þá er þetta búið áður en það hefst.“