Pedri, leikmaður Barcelona og spænska landsliðins, lék sinn 73. leik á árinu í dag er Spánn og Brasilía mættust í úrslitaleik Ólympíumóts karla í fótbolta.
Pedri er einungis 18 ára gamall og er talinn einn efnilegasti leikmaður heims um þessar mundir. Hann lék með Barcelona á Spáni á síðasta tímabili, fór síðan beint á EM 2020 með spænska landsliðinu og í kjölfar þess fylgdi hann hópnum á Ólympíuleikana í Tókýó.
Pedri var valinn besti ungi leikmaður mótsins á EM 2020 en allar 55 sendingar hans í venjulegum leiktíma í undanúrslitaleiknum gegn Ítalíu rötuðu á samherja.
Helstu styrkleikar ungstirnisins eru sendingargeta hans, yfirvegun á boltanum, leikskilningur og yfirburða teknískir hæfileikar.