Englandsmeistarar í Manchester City og bikarmeistarar í Leicester City mætast í leiknum um Samfélagsskjöldinn í dag. Kevin de Bruyne og Phil Foden, leikmenn Man City eru báðir meiddir og verður hvorugur með. De Bruyne meiddist á ökkla á EM 2020 og Phil Foden missti af úrslitaleik Englendinga vegna meiðsla á fæti.
Nýr leikmaður Man City, Jack Grealish, verður hins vegar á bekknum í dag. Grealish varð dýrasti leikmaður í sögu Bretlands á fimmtudaginn þegar hann færði sig yfir til Man City frá Aston Villa fyrir 100 milljónir punda.
„Grealish er alls ekki tilbúinn til að byrja leikinn,“ sagði Guardiola. „Hann hefur æft í eina viku einn, en ferðast með okkur á morgun til að vera með liðinu á fundum og hann verður á bekknum svo við sjáum hvað setur.“
Það eru einnig meiðsli í herbúðum Leicester en varnarmennirnir Wesley Fofana, Jonny Evans, James Justin og Timothy Castagne eru allir fjarri góðu gamni.
Liðin mætast klukkan 16:15 á íslenskum tíma. Leikið verður á Wembley vellinum í London.