Brasilía er Ólympíumeistari karla í fótbolta eftir sigur á Spáni í úrslitaleik liðanna í dag.
Matheus Cunha kom Brasilíumönnum yfir undir lok fyrri hálfleiks eftir sendingu frá Dani Alves en Richarlison hafði brennt af víti nokkrum mínútum fyrr. Það var svo Mikel Oyarzabal sem jafnaði fyrir Spánverja með frábæru marki á 61. mínútu. Það var ekki meira skorað í venjulegum leiktíma og fór leikurinn í framlengingu.
Malcom, leikmaður Barcelona á Spáni kom inn á sem varamaður fyrir Brasilíu og skoraði sigurmarkið á 109. mínútu. Spánverjar reyndu hvað þeir gátu að jafna metin en Brasilía stóð af sér sóknir þeirra og hreppti gullið í leikslok.
Þetta er annar Ólympíusigur brasilíska karlalandsliðsins í fótbolta í röð en liðið vann einnig gullið árið 2016 eftir sigur gegn Þjóðverjum í vítaspyrnukeppni.