Manchester City útilokar ekki að fá Lionel Messi til félagsins. Manchester Evening News segir þetta.
Það gæti þó verið snúið fyrir Englandsmeistaranna að fá hinn 34 ára gamla Messi.
Fréttirnar um að Argentínumaðurinn myndi fara frá Barcelona eftir að hafa verið þar frá aldamótum brutust út í gær, á sama degi og Man City keypti Jack Grealish á 100 milljónir punda.
Goal segir þá frá því að þrátt fyrir það að hafa fengið Grealish í gær þá hafi Man City fjárhagslegt bolmagn til að sækja Messi einnig. Harry Kane, framherji Tottenham, hefur þó hingað til verið þeirra aðalskotmark. Það verður að teljast nær ómögulegt að landa bæði Kane og Messi, ásamt því að hafa fengið Grealish.
Sem stendur er franska stórliðið Paris Saint-Germain í bílstjórasætinu um argentíska snillinginn.