,,Þetta er líklega stærsti leikur á ferli okkar allra,“ sagði Harry Kane við Sky Sports um úrslitaleik Evrópumótsins sem fram fer annað kvöld.
Það líður senn að stóru stundinni. Á morgun getur England unnið sitt fyrsta stórmót frá árinu 1966 er liðið mætir Ítalíu.
,,Eins og er þá finnst mér ekki eins og þessi leikur sé mikið öðruvísi en aðrir. Rútínan hefur verið svipuð og fyrir síðustu leiki. Það er smá spenningur og stress,“ sagði Kane.
Bæði lið hafa átt frábært mót. England hefur aðeins fengið á sig eitt mark á leið sinni í úrslitaleikinn. Þá hafa Ítalirnir heillað marga í flestum leikjum þeirra.
,,Eftir því sem nær dregur einbeitum við okkur meira að andstæðingnum, þeirra styrkleikum og veikleikum,“ sagði Kane að lokum.