Sami dómari og sá um myndbandsdómgæsluna (VAR) í undanúrslitaleik Englendinga og Dana á Evrópumótinu í vikunni mun sinna henni aftur í úrslitaleik mótsins. Valið þykir umdeilt, enda fékk England vítaspyrnu á silfurfati í leiknum.
Úrslitaleikurinn er á milli Englands og Ítalíu. Ítalía vann Spán í undanúrslitum og England Danmörku.
Í síðarnefnda leiknum skoraði England sigurmark út frá vítaspyrnu sem Danir fengu á sig fyrir afar litlar sakir. Þá fór Raheem Sterling ansi auðveldlega niður í teig þeirra. Dómari leiksins dæmdi vítaspyrnu og ákvað myndbandsdómari ekki að breyta dómnum, þrátt fyrir að flestir væru sammála að hann væri rangur.
Í kjölfarið komu upp samsæriskenningar, til að mynda í spænskum og ítölskum fjölmiðlum, þess efnis að UEFA væri að reyna að hjálpa Englandi að vinna EM.
Ein af kenningunum var sú að UEFA væri að endurgreiða Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, fyrir að taka opinbera afstöðu gegn Ofurdeildinni í vor.
Sjá má á samfélagsmiðlum að tíðindin um myndbandsdómarann á úrslitaleiknum ýta undir þessar samsæriskenningarnar.
Sjá einnig: Samsæriskenningar Ítala og Spánverja um Boris