Ashley Cole hefur beðið Kalvin Phillips afsökunar á ummælum sínum um miðjumanninn fyrir Evrópumótið sem nú stendur yfir.
Cole lék á ferli sínum með liðum á borð við Arsenal og Chelsea. Þá lék hann einnig 107 leiki með enska landsliðinu.
Phillips, sem er leikmaður Leeds, hefur verið ein af óvæntu stjörnum enska landsliðsins á Evrópumótinu. Liðið er komið í úrslitaleikinn þar sem það mætir Ítalíu.
Fyrir mót kvaðst Cole, sem starfar sem sparkspekingur, ekki mjög hrifinn af Phillips og til að mynda út á sendingagetu hans. Hann fann sig nú knúinn til að biðjast afsökunar.
,,Veistu hvað, þú færð mikla virðingu frá mér. Mér finnst hann hafa verið frábær á mótinu. Hann hefur verið svo stöðugur og mikilvægur fyrir þetta enska lið. Þetta er mín afsökunarbeiðni,“ sagði Cole.