Jordan Pickford er sá eini í enska landsliðinu sem Jose Mourinho hefur áhyggjur af fyrir úrslitaleik Evrópumótsins á sunnudag. Pickford hefur aðeins fengið á sig eitt mark á öllu mótinu. Þrátt fyrir það telur Mourinho hann ekki hafa verið nógu öruggan.
England mætir Ítalíu í úrslitunum á sunnudag. Þeir unnu Danmörku í undanúrslitum á miðvikudag. Mourinho kveðst ekki hafa verið sérlega hrifinn af Pickford í þeim leik.
,,Hann var sá eini sem sýndi merki um að vera ekki upp á sitt besta, að vera stressaður. Hann þarf að slaka á,“ sagði Portúgalinn.
,,Markmannsþjálfarinn og Gareth, sem og reynslumiklir leikmenn þurfa að reyna að róa hann niður,“ bætti hann við.
Mourinho segir Pickford aðeis þurfa að hafa einföldu hlutina á hreinu í úrslitaleiknum.
,,Það mikilvægasta þegar þú ert markvörður er ekki það að verja ótrúlega erfið skot, það er að gera ekki mistök í auðveldari aðstæðum.“
Að lokum var portúgalski stjórinn með ráðleggingar til enska markvarðarins.
,,Ég myndi segja við hann ‘slakaðu á, hafðu þetta einfalt, ef þú ert undir pressu er betra að sparka bara langt.’ Hann er góður í því. Það gefur liðinu meiri tíma til að skipuleggja sig.“
Leikur Englands og Ítalíu hefst klukkan 19 á sunnudag að íslenskum tíma. Leikið er á Wembley í Lundúnum.