Olivier Giroud, framherji Chelsea, vill komast til AC Milan á Ítalíu. Hann hefur þegar samið við félagið um persónuleg kjör og lengd samnings. Fabrizio Romano greinir frá.
Giroud verður 35 ára í haust. Samningur hans við Chelsea gildir út næstu leiktíð. Milan þarf því að kaupa hann til að leysa hann undan samningi.
Samkvæmt Romano eru félögin í viðræðum um að klára félagaskipti Frakkans.
Giroud hefur verið hjá Chelsea síðan í janúar 2018. Hann kom til liðsins frá Arsenal, þar sem hann hafði átt góð ár.
Milan reynir nú að styrkja sig fyrir átökin í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. Liðið tryggði sér sæti í keppninni í fyrsta sinn í sjö ár í vor.