Jose Mourinho var í góðu skapi og hrósaði leikmönnum Englands eftir 4-0 sigur þeirra gegn Úkraínu í 8-liða úrslitum á Evrópumótinu í knattspyrnu. Englendingar mæta Dönum í undanúrslitum á miðvikudag.
Luke Shaw heillaði í leiknum og gaf tvær stoðsendingar. Mourinho hefur haft gaman að því að gagnrýna kappann síðustu ár og svaraði Shaw honum í vikunni þar sem hann væri orðinn þreyttur á því sem Mourinho hafði að segja. Portúgalski þjálfarinn var þó aðeins jákvæðari í garð Shaw eftir leikinn í gær.
„Luke Shaw er að spila betur og betur,“ sagði Mourinho við talkSPORT.
Mourinho var svo beðinn um að rýna í undanúrslitaleikinn við Dani.
„Ég held að þessir fjórir öftustu og miðjumennirnir muni gera meira en nóg til þess að stoppa Dani. Og svo eru fjórir aðrir leikmenn sem geta skapað úr engu.“
„Þeir þurfa ekki að spila með þrjá til baka á móti þeim eins og á móti Þýskalandi. England þarf ekki að aðlaga sig að leik Dana.“
„Rahemm Sterling og Kane verða alltaf með en það eru tvö pláss óákveðin. Jadon Sancho spilaði vel í kvöld, Phil Foden byrjaði mótið ásamt Mason Mount. Jack Grealish lítur ekki út fyrir að vera uppáhalds leikmaður Southgate en hann spilar alltaf vel þegar hann fær tækifæri.“
„Þetta verður erfiður leikur fyrir England, þrátt fyrir að þeir séu á heimavelli,“ sagði Mourinho að lokum við talkSPORT.