Knattspyrnumenn í dag þurfa að þola ansi mikið hatur á samfélagsmiðlum. Enska landsliðið í knattspyrnu hefur fengið nokkur þúsund ofbeldisfull skilaboð frá aðdáendum á meðan Evrópumótið í knattspyrnu er í gangi.
Guardian fór á stúfana og sáu nákvæmlega 2114 færslur á Twitter á meðan leikirnir í riðlakeppninni voru í gangi. England var í riðli með Króatíu, Skotlandi og tékklandi. Sumar færslurnar voru rasískar og innihéldu meðal annars apatákn. Margir voru ósáttir við ákvörðun leikmanna að krjúpa á hné fyrir leiki.
Harry Kane var mest tekinn fyrir á Twitter í riðlakeppninni af leikmönnum liðsins og voru aðdáendur afar óánægðir með frammistöðu hans. Raheem Sterling, sem hefur skorað þrjú af fjórum mörkum Englendinga í keppninni, varð næstmest fyrir barðinu á nettröllum. Phil Foden, Jack Grealish, Jordan Pickford og Tyrone Mings fengu einnig að finna fyrir því.
Gareth Southgate virtist þó fara mest í taugarnar á netverjum en hann fékk flest ljót skilaboð af öllum sem tengjast enska landsliðinu.