
Jose Mourinho gagnrýndi franska landsliðið harkalega eftir að þeir duttu út í 16-liða úrslitum á Evrópumótinu í knattspyrnu gegn Sviss.
Frakkar voru undir í hálfleik gegn Sviss en komu til baka og voru komnir í 3-1 á tímabili. Frakkar misstu það niður og fór leikurinn í framlengingu og vítaspyrnukeppni. Mbappe tók síðustu spyrnuna og lét verja frá sér.
Mourinho var óánægður með viðbrögð frönsku leikmannanna eftir þriðja mark þeirra í leiknum.
„Frakkar geta bara kennt sjálfum sér um. Þeir byrjuðu leikinn illa en þeir komu frábærlega til baka og sýndu hæfileikana sem eru í liðinu,“ sagði Mourinho við talkSPORT.
„En ég var ósáttur með hvernig þeir fögnuðu þriðja markinu. Ég var ekki ánægður með það. Ég fékk á tilfinninguna að þeir væru strax farnir að fagna hjá Eiffel turninum og dansandi úti um allt.“
„Það voru tuttugu mínútur eftir, leikurinn er ekki búinn. Hættið að dansa,“ sagði Mourinho við talkSPORT.
Mourinho gagnrýndi einnig skiptingar Didier Deschamps undir lok leiks og taldi þær hafa haft vond áhrif á leik liðsins.