

Manchester United er á barmi þess að ganga frá kaupum á Raphael Varane frá Real Madrid. Þetta fullyrðir Mark Ogden blaðamaður ESPN.
United gekk í gær frá samkomulagi við Borussia Dortmund um kaup á Jadon Sancho og borgar félagið 73 milljónir punda fyrir enska kantmanninn.
Varane á ár eftir af samningi sínum við Real Madrid og vill fara, talið er að hann sé til sölu fyrir um 40 milljónir punda.
Vitað er að Ole Gunnar Solskjær leggur mikla áherslu á það að kaupa miðvörð og virðist Varane vera efstur á blaði í sumar.
Varane er í sumarfríi eftir að Frakkland féll úr leik á Evrópumótinu og því getur United látið til skara skríða og reynt að klófesta hann á næstu dögum.