Úkraína fór í kvöld í 8-liða úrslit EM 2020 eftir sigur á Svíþjóð í framlengdum leik.
Leikurinn fór rólega af stað. Fjör færðist í leikinn þegar líða tók á fyrri hálfleikinn. Oleksandr Zinchenko kom Úkraínu yfir á 27. mínútu leiksins.
Úkraínumenn stýrðu ferðinni fram að jöfnunarmarki Svía á 43. mínútu. Þá skoraði Emil Forsberg af löngu færi. Boltinn hafði þó viðkomu í varnarmann Úkraínu. Staðan í hálfleik var 1-1.
Bæði lið komust nálægt því að skora nokkrum sinnum í seinni hálfleik. Þeim tókst það hins vegar ekki og því þurfti að fara í framlengingu.
Eftir tæpar tíu mínútur af framlengingu fékk Marcus Danielson, leikmaður Svíþjóðar, rautt spjald fyrir ljótt brot á Artem Biesiedin. Dómarinn notaðist við VAR til að komast að niðurstöðunni.
Einum fleiri fundu Úkraínumenn sigurmark seint í framlengingunni, nánar til tekið á 121. mínútu. Þá skoraði Artem Dovbyk eftir frábæra fyrirgjöf frá Zinchenko. Lokatölur 2-1 fyrir Úkraínu.
Úkraína mætir Englandi í 8-liða úrslitum. Svíar eru á heimleið.