Belgar eru komnir í 8-liða úrslit á EM 2020 eftir sigur á Portúgal í kvöld.
Hvorugt liðið var tilbúið til að taka mikla áhættu í fyrri hálfleik. Leikurinn var því nokkuð lokaður.
Það kom því eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar Thorgan Hazard skoraði fyrir Belga með skoti fyrir utan teig á 42. mínútu. Rui Patricio í marki Portúgala misreiknaði boltann, hefði líklega mátt gera betur. Staðan í hálfleik var 1-0.
Portúgal hélt boltanum vel í upphafi seinni hálfleiks en náði ekki að opna varnarlínu Belga.
Þegar leið á hálfleikinn fór leikurinn þó að opnast. Portúgalir fengu sín tækifæri til að jafna á meðan Belgarnir reyndu skyndisóknir hinum megin.
Belgía landaði þó 1-0 sigri og er liðið komið í 8-liða úrslit. Þar mætir það Ítalíu á föstudaginn. Evrópumeistarar Portúgala eru úr leik.