Chelsea tók á móti Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í dag. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli og þar með mistókst báðum liðum að koma sér í fjórða sæti deildarinnar.
Fyrsta mark leiksins skoraði Olivier Giroud fyrir Chelsea. Markið var hans sjöunda í röð gegn Aston Villa. Giroiud skallaði knöttinn í netið eftir fyrirgjöf frá Ben Chilwell. Síðan Giroud spilaði sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni árið 2012 hefur hann skorað flest skallamörk í deildinni, samtals 32.
Á 50. mínútu jöfnuðu gestirnir metin. Anwar El Ghazi skoraði eftir undirbúning Matty Cash.
Fleiri urðu mörkin ekki. Bæði lið eru með 26 stig eftir leik dagsins. Aston Villa hefur spilað 14 leiki á meðan Chelsea hefur spilað 16 leiki. Aston Villa er í fimmta sæti og Chelsea í því sjötta.
Chelsea 1 – 1 Aston Villa
1-0 Olivier Giroud (34′)
1-1 Anwar El Ghazi (50′)