Bale hafði staðið sig vel með spænska félaginu síðustu ár en undanfarið hafði hann fengið að spila minna og var togstreitan mikil milli hans og félagsins. Á síðustu dögunum gerði Bale fátt annað en að vera með fíflalæti á bekknum og skjóta á félagið með gríni. Þrátt fyrir að Bale sé farinn frá Real Madrid þá er hann ekki hættur að skjóta á félagið.
Fyrir þremur árum ákvað Bale að opna bar í Cardiff en barinn hét „Elevens“ og vísaði í númerið sem Bale var með á treyjunni sinni hjá Real Madrid. Hjá Tottenham hefur hann fengið númerið 9 og ákvað því að breyta nafninu á barnum í „Nines“. Telja menn að Bale hafi breytt nafninu til að skjóta á Real Madrid. „Þetta er svolítið skemmtilegt,“ sagði yfirmaðurinn á barnum í samtali við ITV um málið.