Tryggvi Hrafn Haraldsson framherji ÍA er ekki á förum þó að sögusagnir þess efnis hafi náð flugi í gær og í dag á nýjan leik.
Tryggvi hefur reglulega verið orðaður við önnur lið en Valur, KR og fleiri lið hafa verið nefnd til sögunnar.
Í þessar viku hefur Tryggvi mikið verið orðaður við KR en hann er þó ekki á leið til félagsins. Sögurnar fóru á kreik þegar sást til Tryggva í Vesturbænum og það mjög nálægt KR Heimilinu.
„Ég var að flytja í Vesturbæinn en er ekki að fara í KR, ég verð á Akranesi í sumar,“ sagði Tryggvi Hrafn þegar blaðamaður talaði við hann í dag.
Tryggvi er einn besti leikmaður deildarinnar en samningur hans við ÍA er á enda í október, þá gæti hann farið frítt frá ÍA sem hefur glímt við mikla fjárhagserfiðleika.