Tímavélin:
Það er alveg óhætt að segja frá því að dómarar í knattspyrnuleikjum séu ekki alltaf þeir vinsælustu á vellinum. Dómararnir hafa stjórn á leikmönnum vallarins en gerast oft sekir um mistök eins og allir aðrir.
Það er ekki alltaf sem leikmenn sýna dómurum þá virðingu sem þeir eiga skilið enda um gríðarlega erfitt starf að ræða. Árið 1992 fór fram leikur ÍA og Vals í efstu deild hér á landi en þar misstu margir leikmenn stjórn á sínu skapi.
Bragi Bergmann, dómari í þeim leik, var með hljóðnema og tók allt upp sem fór fram á vellinum. Það er óhætt að segja að það hafi mikið gengið á í þessari viðureign og átti Bragi í miklu basli með að hafa stjórn á leikmönnum.
,,Þið verðið að fara að spila knattspyrnu hérna,“ segir Bragi á einum tímapunkti er allt var byrjað að sjóða upp úr. Margir af þessum leikmönnum horfa eflaust til baka súrir á svipinn yfir hegðun sinni í þessum leik.
Sigurður Jónsson, fyrrum landsliðsmaður, var fyrirliði ÍA í þessum leik en hann lék með liðum á borð við Arsenal, Sheffield Wednesday og Örebrö á ferlinum. Sævar Jónsson lék með Val en hann hefur í seinni tíð verið kenndur við verslunina, Leonard.
Hér fyrir neðan má sjá allt það sem náðist á upptöku.