,,Það er símatíminn,“ sagði Geir Þorsteinsson, nýr framkvæmdarstjóri knattspyrnudeildar ÍA við hlaðvarpsþáttinn Fantasy Gandálf þegar hann var spurður um aksturinn frá Reykjavík í vinnuna.
Geir var formaður KSÍ um langt skeið en er mættur aftur í boltann og tók að sér ærið verkefni á Akranesi. Rúmlega 60 milljóna króna tap var á rekstri ÍA á síðasta ári.
Félagið hefur ráðist í aðgerðir vegna þess og kórónuveiran hefur svo haft enn meiri áhrif á rekstur félagsins. ,,Þetta er mjög krefjandi fyrir öll íþróttafélög, algjört tekjufall en við þurfum að standa við mikið af skuldbindingum. Við getum styrkt enn meira okkar barna og unglingastarf, til að fylla liðið sem mest af okkar heimafólki.“
Verkefni Geirs næstu daga er að halda lífi í rekstri ÍA. ,,Til skamms tíma er að halda skútunni á floti.“
Leikmenn ÍA fengu aðeins helming launa sinna um mánaðamótin, félagið vonast til þess að hlutabótaleið ríkisstjórnarinnar komi að gagni við leikmenn sína. Félagið getur ekki greitt meira, Geir segir fjármunina ekki vera til.
,,Við þurfum að lúta reglum er varðar þessa samninga, við viljum halda ráðningarsambandi við þessa leikmenn. Það er markmiðið, það er mjög erfið staða í íslenskum knattspyrnufélögum. Við ákváðum að greiða leikmönnum eftir því fjármagni sem við höfum, það streyma engir fjármunir inn í félögin núna. Við ákváðum að nýta okkur ríkisleiðina, vonandi verða úrbætur á þeirri leið. Sú leið er mjög mikilvæg íþróttafélögum, við erum að reyna að nýta okkur það.“
Geir segir að verkefni hans verði svo að endursemja við leikmenn. ,,Það bíður verkefni að endursemja við leikmenn. Þetta kom með snöggum hætti, ég var ráðinn 21 mars og við þurftum að glíma við þessi verkefni fyrir mánaðamótin. Það er enginn ánægður að vera skertur í tekjum, við lifum á fyrirtækjunum. Við verðum að reyna að leysa úr þessu, það byggir á því að endursemja við leikmenn á komandi mánuðum.“
Skagamenn skulda leikmönnum sínum bónusgreiðslur frá síðustu leiktíð en ekki kom fram í máli Geirs, hvernig það mál yrði leyst.