Í dag er 31 ár frá því að harmleikurinn á Hillsborough átti sér stað. Þar fóru 96 stuðningsmenn Liverpool á völlinn en komu aldrei aftur heim.
Yfirvöld reyndu í mörg ár að fela sannleikann en þrautseigja hjá stuðningsmönnum Liverpool varð til þess að sannleikurinn kom í ljós.
Leikmenn Liverpool vottuðu fórnarlömbunum virðingu sína í dag á samfélagsmiðlum en minningarathöfn sem fer fram á hverju ári, fór ekki fram vegna kórónuveirunnar. Útgöngubann er á Englandi.
Jurgen Klopp, stjóri félagsins sendi stuðningsmönnum kveðju. ,,Í dag er sá dagur sem skiptir okkar félag mestu máli,“ sagði Klopp.
,,Við ætluðum að vera saman á Anfield en það er ekki möguleiki, það eina sem getum gert er að hugsa til hvors annars.“
,,Við hugsum til ykkar, þið eruð í bænum okkar og við elskum ykkur. Þið gangið aldrei ein.“