Trevor Sinclair, sérfræðingur BBC hefur gert allt vitlaust í Liverpool eftir að hann gerði grín að fátækt í borginni. Hann talaði um ´Bin dippers´sem er slangur sem var notað um fólk frá Liverpool, það byrjaði í kringum 1980 þegar mikil fátækt var í borginni og sérstaklega í kringum stjórnartíð Margaret Thatcher.
Að nota ´Bin dippers´ er niðurlægjandi og það hefði Sinclair sem lék áður með Manchester City, mátt vita. ,,Ruslarótarar, við erum að koma,“ skrifaði Sinclair á Twitter og átti þar við sigur City á Burnley í gær, liðið er nú átta stigum á eftir toppliði Liverpool.
Talað var um að fólk frá Liverpool hafi þurft að róta í ruslinu til að finna sér mat þegar fátæktin var sem mest í borginni, margir krefjast þess að Sinclair verði sagt upp störfu hjá BBC og Talksport eftir að hafa notað þetta orð.
Hann hefur beðist afsökunar en stuðningsmenn Liverpool vilja að hann missi vinnuna. ,,Ég biðst afsökunar ef fólk móðgaðist í gær ég er alinn upp af verkafólki og skil hvernig fólk tók þessu,“ sagði Sinclair.
,,Ég ætlaði ekki að móðga neinn, sérstaklega ekki út frá því hvar fólk er í þjóðfélaginu.“
Liverpool mætir Everton í kvöld og getur þá aftur náð ellefu stiga forsoti á City.