Stoycho Stoev, þjálfari Ludogorets, ræddi við blaðamann Morgunblaðsins í gær fyrir leik gegn Val í Evrópudeildinni.
Ludogorets er eitt besta lið Búlgaríu en liðið mætir á Origo-völlinn í kvöld í fyrri leik liðanna af tveimur.
Stoev hefur ekki séð mikið til Vals en sá liðið þó spila gegn Maribor í síðustu umferð Meistaradeildarinnar þar sem Valur tapaði nokkuð sannfærandi.
„Einu leikirnir sem ég hef séð hjá Val voru á móti Maribor. Valur tapaði tvisvar en spilaði vel og spilaði á sínum styrkleikum,“ sagði Stoev við Mbl.
,,Valsarar geta verið ánægðir með leikina, þrátt fyrir töp. Þeir reyndu að spila fótbolta á móti sterkum andstæðingi. Þeir spila ekki sem einstaklingar, heldur sem lið. Það eru engar stórstjörnur í þessu liði.“
Stoev er þá ekkert svakalega hrifinn af því að spila á gervigrasi eins og er í boði á Hlíðarenda.
„Það er ekki gott fyrir okkur að spila á gervigrasi. Boltinn hreyfist öðruvísi og sömuleiðis leikmenn. Hraðinn á boltanum er allt öðruvísi og það er vont fyrir okkur að spila á þessum velli.“
„Við berum virðingu fyrir Val, en á morgun eru markmiðin skýr; við ætlum að vinna og fara áfram í næstu umferð.“