Cristiano Ronaldo hefur verið sýknaður af ákæru um kynferðisbrot en þetta var staðfest í dag.
Ronaldo var ásakaður um nauðgun af fyrrum fyrirsætunni Kathryn Mayorga en þau hittust á næturklúbbi árið 2009.
Mayorga ásakaði Ronaldo um að hafa nauðgað sér á hótelherbergi í Las Vegas en Portúgalinn hélt alltaf fram sakleysi sínu.
Engin sönnunargögn fundust í máli Ronaldo og hefur því verið lokað.
Mayorga og Ronaldo eyddu nótt saman á Palms hótelinu í Vegas en sá síðarnefndi var þá nýbúinn að skrifa undir hjá Real Madrid.
Mayorga hefur undanfarna mánuði verið í felum en hún fékk morðhótanir eftir að hafa opnað málið á ný.
Ronaldo var ekki lengi að svara fyrir sig eftir ásakanir Mayorga og neitaði allri sök á Instagram síðu sinni.
,,Þau vilja öðlast frægð á nafninu mínu. Það er eðlilegt. Þau vilja öll vera fræg. Það er hluti af starfinu,“ sagði Ronaldo á meðal annars.
Lögfræðingur Ronaldo, Carlos Osorio de Castro, staðfesti það í samtali við the Mirror í dag að málinu hefði verið lokað.