fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
433Sport

Gylfi Þór Sigurðsson í ítarlegu viðtali: Peningar, trú og ástin – „Það var frábær staður til að fara á skeljarnar“

Hörður Snævar Jónsson
Fimmtudaginn 22. nóvember 2018 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Gakktu í bæinn.“ Það er Gylfi Sigurðsson, okkar fremsti knattspyrnumaður og leikmaður Everton í Englandi, sem ávarpar blaðamann. Gylfi stendur í dyrunum í glæsilegu heimili í úthverfi Manchester. Gylfi er fyrirmynd sem hefur átt feril sem alla unga knattspyrnumenn dreymir um. Við höfum öll séð Gylfa á skjánum, smella boltanum upp í skeytin, eiga ótrúlegar sendingar, vinna leiki upp á eigin spýtur, og við höfum séð hann í hverju viðtalinu á fætur öðru. Hingað til hefur Gylfi haldið sínum persónulegu högum að mestu fyrir sig en í samtali við Hörð Snævar Jónsson, ritstjóra 433.is, ákvað okkar fremsti knattspyrnumaður að hleypa lesendum nær sér en áður.

Langt síðan ég ætlaði að giftast henni

Gylfi settist niður með blaðamanni í herbergi sem allt knattspyrnuáhugafólk hefði unun af að skoða. Herbergið er eins og safn. Þar má sjá treyjur frá mörgum af bestu knattspyrnumönnum í heimi sem rammaðar eru inn og hanga á veggjum. Fram undan er leikur í London, gegn stórliði Chelsea. Leikur sem á eftir að enda með markalausu jafntefli og þau sem sitja við skjáinn heim eiga eftir að öskra á sjónvarpið þegar brotið er illilega á okkar manni. Það er þess vegna sem hann verður ekki með í næstu leikjum landsliðsins. Það veit blaðamaður ekki á þessari stundu, þar sem hann situr á móti Gylfa. Úr eldhúsinu berst lokkandi ilmur en þar er Alexandra Helga Ívarsdóttir, unnusta Gylfa, við matseld. Gylfi og Alexandra trúlofuðu sig í sumar í paradísinni á Bahamaeyjum.

,,Það er langt síðan ég ætlaði að giftast henni. Ég var bara ekki búinn að ákveða hvernig eða hvar ég myndi bera þetta upp,“ segir Gylfi þegar hann er spurður út í bónorðið, en stóri dagurinn verður á næsta ári. „Það eru sjö ár síðan við kynntumst. Hún er frænka Kolbeins.“ Gylfi á vitanlega við einn okkar besta sóknarmann og samherja sem nýlega steig upp úr erfiðum meiðslum. „Systir Kolbeins og Alexandra eru mjög góðar vinkonur. Það var í gegnum þau sem við kynntumst,“ segir Gylfi og bætir við að eftir heimsmeistarakeppnina í Rússlandi hafi þau ákveðið að fara í frí til Bahamaeyja. Þar leiddi eitt af öðru.

„Það var frábær staður til að fara á skeljarnar,“ segir Gylfi. „Við áttum geggjaðan dag, tvö saman. Ég lét vaða í kvöldmatnum. Ég hef aldrei verið jafn stressaður á ævinni. Við vorum úti allan daginn og komum til baka í kvöldmat sem ég hafði planað. Ég var búinn að fela hringinn og var með hann í rassvasanum. Ég var með ræðu sem ég ætlaði að muna.“ Þegar svo kom að stóru stundinni fraus Gylfi. Hann hafði gleymt hverju orði. „Eftir svona þrjár sekúndur þá var hún örugglega að hugsa hvað væri að mér. Þá skáldaði ég eitthvað nýtt og bjargaði mér,“ segir Gylfi og bætir við um eitt stærsta augnablik lífs síns: „Hún sagði alla vega já!“

Stóra stundin á Bahamaeyjum

Fagnaði ekki þegar hann fór fyrst í atvinnumennsku

Allir sem þekkja til Gylfa vita að metnaður hans og hugarfar er einstakt. Það sannast best þegar við rifjum upp þegar Gylfi var keyptur aðeins 16 ára gamall til Reading á Englandi. Margir ungir leikmenn halda á þeim tímapunkti sé sigurinn í höfn. Það er fjarri lagi og margir hafa fengið tækifærið en svo ekki haft það hugarfar sem þurfti. Nýtt land, annað tungumál, fjölskylda og vinir jafnvel ekki til staðar. En Gylfi var einbeittur, vel undirbúinn. Stefnan var alltaf að fara yfir hafið. Hann hafði meðal annars farið í enskuskóla til að undirbúa sig þegar kallið kæmi. „Ég held að ég átti mig ekki á því fyrr enn um mitt tímabil á fyrsta tímabilinu í aðalliði Reading (árið 2010),  þegar það er byrjað að ganga vel. Ég var búinn að skora fullt af mörkum og hugsaði að þetta gæti gengið upp, að ég gæti komist í fremstu röð. Fyrir það, í U16, U17 og U19 ára liðum hjá Reading, þá getur allt gerst. Þú getur meiðst og þá er þetta bara búið. Það eru tveir eða þrír í mesta lagi úr hverju U18 ára liði sem munu eiga fínan feril, hvað þá spila í úrvalsdeildinni í mörg ár,“ segir Gylfi og bætir við að til að uppfylla drauminn um atvinnumennsku þurfi allt að ganga upp og það þurfi að taka hina ýmsu þætti inn í jöfnuna svo útkoman verði jákvæð. „Það er margt sem spilar inn í; að flytja ungur frá fjölskyldunni og meiðsli geta eyðilagt allt. Svo þarftu að vera heppinn og leggja mikið á þig.“

Gylfi kveðst í fyrstu hafa verið sáttur við að fá tækifæri með 18 ára unglingaliði Reading. En hann hungraði í meira.

„Ég var ekki sáttur við að komast bara á þann stað, ég vildi komast lengra. Ég leit á þetta sem tækifæri fyrir mig til að æfa á grasi allt árið, við mikið betri aðstæður en heima á Íslandi, svo ég gæti bætt mig og reynt að ná markmiðum mínum,“ segir Gylfi og bætir við að markmið hans hafi alltaf verið stærra í sniðum en að ná að spila knattspyrnu erlendis. Draumurinn var að spila með þeim bestu í stærstu liðum Englands.

Blóðheitur pabbi sem dró hann áfram

Sigurður Aðalsteinsson og Margrét Guðmundsdóttir, foreldrar Gylfa, fylgdu honum til Englands þegar hann var 16 ára. Sigurður og Ólafur Már Sigurðsson, bróðir Gylfa, höfðu mikil áhrif á hversu langt Gylfi hefur náð sem atvinnumaður.

„Mamma og pabbi fluttu bæði með mér út,“ segir Gylfi. „Ég var fyrst hjá fjölskyldu í tvo til þrjá mánuði en þau áttu strák í liðinu, svo koma mamma og pabbi út. Þá var þetta mikið auðveldara fyrir mig. Það hjálpaði mér þá, en ég hefði alveg getað verið áfram hjá fjölskyldunni. Það segir sig sjálft að þegar maður flytur út fimmtán, sextán ára, þá er frábært að vera með fjölskylduna sér til stuðnings. Pabbi er blóðheitur og hefur alltaf verið það. Hann og bróðir minn tosuðu mig í gang í fótbolta og þjálfuðu mig, hvort sem það var í gegnum æfingar eða með því að kenna mér fótbolta þegar ég var ungur. Ég lærði heilmikið á því. Staðan er þannig í dag að það eru það margir í fótbolta, það margir góðir, að þú verður að byrja að æfa eins fljótt og hægt er.“

Gylfi er afar þakklátur bæði bróður sínum og föður fyrir að hvetja hann áfram. Það er ljóst að þessi samhenta fjölskylda á sinn þátt í velgengni Gylfa með því að styðja dyggilega við bakið á honum.

„Ég held að það hafi hert mig að vera dreginn á æfingar, samt var aldrei eins og ég vildi ekki fara en auðvitað hefði maður viljað gera aðra hluti. Ég man að eftir leiki á mínum yngri árum fóru þeir yfir leikina með mér strax eftir að þeim lauk; hvað ég gerði rétt, hvað ég gerði vitlaust og hvað ég þyrfti að bæta. Í dag hefur þetta borgað sig margfalt,“ segir Gylfi. „Ég sé það á mörgum ungum strákum í dag að þegar þjálfarinn lætur þá heyra það, þá taka þeir því illa og fara í vitlausa átt í staðinn fyrir að venjast því. Takist það, þá getur maður höndlað mótlæti þegar maður ert látinn heyra það síðar.“

Þótt Gylfi sé nú að leika á stóra sviðinu lætur sá gamli enn í sér heyra. Faðir Gylfa hringir reglulega. Hann er þá jafnvel búinn að kortleggja markmanninn fyrir næsta leik og kemur mikilvægum upplýsingum á framfæri til sonarins.

„Í síðasta leik gegn Leicester sagði hann að Schmeichel stæði alltaf framarlega. Þar hafði hann rétt fyrir sér,“ segir Gylfi sem skoraði eitt af sínum bestu mörkum á ferlinum eftir ráðleggingar frá föður sínum.

Sér það ekki fyrir sér að búa á Íslandi

Gylfi hefur búið á nokkrum stöðum en líður best á Englandi. Í framtíðinni sér hann ekki fyrir sér að hafa fasta búsetu á Íslandi.

„Að búa í Þýskalandi var allt öðruvísi. Þar var allt lokað á sunnudögum, og allt miklu minna. Ég bjó litlum bæ úti í sveit svo það var ekki mikið að gera. En mér líður frábærlega á Englandi og konunni líka. Ég held að ég sé ekki að fara héðan í bráð. Ég væri alltaf til í að prófa eitthvað nýtt, læra nýtt tungumál og spila í meiri hita en ég býst ekki við því eins og staðan er í dag,“ segir Gylfi.

„Strax þegar ég flutti út langaði mig að koma til baka til FH og spila eitt tímabil en það eru litlar líkur á því. Ég verð 31 árs eða 32 ára þegar samningurinn við Everton rennur út. Hvort ég fari í sólina eða haldi áfram hér er erfitt að segja til um. Manni fannst þetta svo auðvelt þegar maður var ungur. Ef ég helst heill og ef það er ekkert vesen, þá held ég örugglega áfram en það er ekki hægt að slá líku föstu.“

Eftir fjögur fimm ár gæti Gylfi séð fyrir sér að takast á við allt aðra hluti, en býst við að það verði erfitt að leggja skóna á hilluna.

„Ég er alltaf tilbúinn að prófa eitthvað nýtt og það eru margir leikmenn að fara til Bandaríkjanna. Það væri frábært að prófa að búa þar í eitt til tvö ár og spila fótbolta. Deildin er alltaf að verða sterkari og það væri gaman að ferðast um Bandaríkin, spila í 1–2 ár, en þegar einhver vill þig í úrvalsdeildinni þá er erfitt að fara,“ segir Gylfi.

„Ég sé það ekki fyrir mér núna að búa á Íslandi. Ég væri til í að vera heima á Íslandi yfir sumarið og eyða töluverðum tíma þar. Ég veit ekki hvort við Alexandra munum búa á Íslandi, við höfum ekki ákveðið það. Við munum örugglega eyðum miklum hluta í Bandaríkjunum.“

Sér ekki eftir neinu

Árið 2012 var Gylfi keyptur til Tottenham, þá 22 ára gamall. Tottenham er stærsta félagið sem Gylfi hefur samið við á ferlinum. Sumir hafa talað um þann tíma sem vonbrigði á hans ferli en hann lítur á það öðrum og jákvæðari augum. „Ég var 22 ára og að fara til Tottenham. Það er skrítið að hugsa til baka en á þeim tíma var þetta svo eðlilegt. Auðvitað vildi maður vera þar áfram og spila meira en ég sé ekki eftir neinu. Þetta var frábær tími og það var mögnuð reynsla að fá tækifæri til að spila með mörgum mjög góðum leikmönnum. Ég bætti mig mikið þarna og það var erfið ákvörðun að ákveða að fara.“

Gylfi bætir við að stuðningsmenn Tottenham hafi tekið honum vel. En bekkjarseta hafði áhrif á ákvörðun Gylfa um að kveðja þennan fornfræga klúbb.

„Ég vil bara spila fótbolta og er ekki sáttur ef ég er á bekknum eða spila lítið. Ég er ekki ánægður með að fá borgað fyrir að spila ekkert. Ég vil spila og bæta mig í hverri viku.“

Finnst ótrúlegt að Everton hafi ekki hætt við að kaupa hann

Rúmt ár er síðan að Everton greiddi um 45 milljónir punda fyrir Gylfa. Um risaupphæð er að ræða. Til að setja hana í samhengi er Gylfi til dæmis tvöfalt dýrari en WOWair sem Icelandair keypti á dögunum. Félagið var lengi að komast að samkomulagi við Swansea og bjóst Gylfi við að forráðamenn Everton gæfust upp.

„Mér finnst ótrúlegt að Everton hafi ekki hætt við, hefði ég sjálfur verið þjálfarinn eða eigandinn hefði ég sagt: „heyrðu gleymum þessu bara og finnum einhvern annan“. Tímabilið var byrjað og þetta var komið út í vitleysu,“ segir Gylfi en á fyrsta ári sínu hafði hann þrjá knattspyrnustjóra. Sá fjórði stýrir liðinu nú, Marco Silva sem hefur gríðarlega trú á Gylfa. Liðið spilar einnig vel undir hans handleiðslu og Gylfi hefur átt hvern stórleikinn á fætur öðrum.

„Fyrsta tímabilið leið mjög hratt en það gekk illa hjá okkur, það er ekki hægt að horfa fram hjá því. Við skiptum um þjálfara og þetta var bara eins og það var, ekkert sérstakt tímabil. Í lokin gekk ágætlega en það er allt önnur tilfinning í kringum hópinn og liðið í dag.“

Aðspurður um skoðun á þessari háu upphæð sem Everton pungaði út fyrir hann, svarar Gylfi:

„Þó að ég hafi kostað tíu pund eða fimmtíu milljónir punda eða hvað sem það var, það skiptir engu máli. Við vissum alveg að ég var ekki að standa mig og liðið ekki heldur. En maður heldur bara áfram og ég hlusta ekki of mikið á fjölmiðla og les ekki fréttir. Ég heyri ekki allt sem er í gangi en ég er ekki vitlaus, þegar við vinnum ekki leiki þá er fólkið í kringum félagið ósátt. En maður reynir bara að bæta sig á hverjum degi og komast í gegnum þetta og við gerðum það í lokin. Það er miklu meiri hefð fyrir því að liðið vinni, það er krafa um að við vinnum alla leiki sem við spilum. Það er það sem leikmenn elska, þegar þú vinnur þá gefur það meira, það er sætara þegar pressan er meiri. Það skiptir ekki máli hvort við séum að spila gegn bestu eða slökustu liðunum, það er krafa á sigur, alltaf.“

Mættu bara í landsleiki til að vera með

Frá því Gylfi hóf vegferð sína með landsliðinu hefur margt breyst. Liðið hefur farið á tvö stórmót. Blaðamanni leikur forvitni á að vita hvað hafi breyst?

„Hugarfarið, fyrst og fremst,“ svarar Gylfi. „Það verða einhverjir ósammála sem lesa þetta, en hugarfarið var ekkert sérstakt. Það voru allir mættir til að mæta, aðeins til að vera með. Það er allt öðruvísi að mæta núna, sérstaklega undir stjórn Lagerbäck og Heimis. Þá mættu menn í leiki til að vinna þá, það var ekkert að trufla okkur. Menn gerðu allt til þess að vinna næsta leik, við ætluðum okkur á stórmót. Ég var ungur og nýlega mættur inn í liðið árið 2010, markmiðið hefur verið síðustu ár að komast í fremstu röð, það eru allt aðrir hlutir sem við höfum einblínt á en áður og markmið okkar allra var og er að komast inn á stórmót í hverri riðlakeppni.“

Erfið stund, svefntafla dugði ekki til að ná sér í svefn eftir leik.

Tók svefntöflu en sofnaði ekki

Í sumar tók íslenska landsliðið þátt í sínu fyrsta heimsmeistaramóti. Gylfi var þar eins og svo oft áður í lykilhlutverki. Í leik á móti Nígeríu varð Gylfi fyrir áfalli. Íslenska liðið var tveimur mörkum undir og skammt til leiksloka þegar dómarinn dæmdi vítaspyrnu. Gylfi tók sér stöðu á vítapunktinum, þjóðin hélt niðri í sér andanum og eygði von að komast aftur inn í leikinn, en Gylfi skaut yfir markið. Það tók á, en Gylfi hefur unnið úr því.

„Ég tók svefntöflu og sofnaði ekki, þetta var ansi erfitt. Þegar maður stígur fram og tekur víti, þá veit maður að það eru tveir möguleikar; maður skorar eða klikkar. Þetta er þannig séð þér að kenna, það er skrýtið að segja það núna, því það var ekkert jákvætt við að klúðra þessu. Í dag finnst mér samt að ég hafi lært mikið af þessu, ég sé andlega sterkari. Það var ekki auðvelt að horfast í augu við þetta svona rétt á eftir, ég vissi að flestir í heiminum sem fylgjast með fótbolta, væru að horfa. Augnablikið að koma okkur aftur inn í leikinn, við hefðum átt frábæran séns á að setja pressu á það í lokin.“

Meistarakokkur í eldhúsinu

Óhætt er að fullyrða að Gylfi hafi gert allt sem í hans valdi stóð til að ná á toppinn. Hann borðar eins hollan mat og kostur er. Þá hjálpar að Alexandra Helga, unnusta Gylfa, hefur mikla ástríðu fyrir eldamennsku.

„Ég hef alltaf verið meðvitaður um hvað ég er að borða. Eftir leiki borða ég bara það sem ég vil, maður er að fylla á tankinn eftir leiki. Ég fylgist með því í gegnum vikuna, þetta er orðinn vani, sérstaklega þegar maður er með alvöru kokk í eldhúsinu. Hún hefur meira en gaman af þessu, hún er að taka diplómu í náttúrulegri eldamennsku. Hún er það góð að hún gæti leikandi starfað sem kokkur á vinsælum veitingastað,“ segir Gylfi og bætir við: „Ég er aldrei að fara í vegan, ég borða mikið af kjúklingi og fiski en ég hef minkað að borða rautt kjöt. Ég get alveg fengið mér steik og geri það ef farið er á þannig stað. Ég reyni að borða eitthvað sem gefur mér orku, ekki eitthvað sem fyllir mann „átviskubiti“ eftir á.“

Drekkur ekki

Gylfi hefur aldrei neytt áfengis. Það hefur hvarflað að honum að fá sér glas af rauðvíni en það hefur ekki gerst enn.

„Ég hef alveg hugsað í það síðustu ár hvort ég ætti að fá sér glas af rauðvíni, prófa það með mat,“ segir Gylfi. „Ég held að það sé hundrað prósent öruggt að þetta hefur hjálpað mér, að neyta ekki áfengis. Meiðslin eru færri og þegar þú drekkur þá leitar þú meira út. Þegar ég var ungur, þá hjálpaði það mér að leita ekki í áfengi. Ég hef, 7, 9, 13, verið heppinn með vöðvameiðsli í gegnum tíðina og þetta er held ég ein af ástæðum þess. Ég er ekki sá fljótasti og slepp við þannig meiðsli og að hafa ekki drukkið áfengi hefur örugglega hjálpað. Það er allt í lagi að vera í kringum fólk sem er drukkið en það er ekki gaman þegar fólk er orðið of fullt, ég er yfirleitt sá eini sem er edrú en ég leita ekki mikið niður í bæ.“

Reynir að koma peningum sínum vel fyrir

Ekkert leyndarmál er að Gylfi er vel launaður. Fjárfestingar hans hafa oft ratað í fréttir. Ferillinn er stuttur og því skiptir máli að fara vel með peninga. Hann segir að umræða um hvað hann geri við peningana nái ekki til hans. „Þetta slær mig ekkert þannig, þetta hefur verið í gangi lengi, frá því að ég fór til Hoffenheim,“ segir Gylfi. „Það vita allir að það er vel borgað að spila fótbolta. Þetta er eitthvað sem fylgir því. Ég held að íslenskir fjölmiðlar séu mjög sanngjarnir. Sérstaklega við okkur fótboltamenn, það er jákvæðni í okkar garð, ég get ekki sett mikið út á umfjöllun um mína hagi. Hvort það komi fólki við eða ekki, ég hef ekki neina skoðun á því. Það skiptir mig engu máli hvort fólk viti þetta, eða viti það ekki. Þetta er bara svona, maður lærir að lifa með þessu,“ segir Gylfi.

„Ég reyni að fjárfesta og koma peningum vel fyrir. Ég veit að ég verð ekki með þessi laun í 40 ár. Þegar ferlinum lýkur verð ég að vera búinn að tryggja framtíð mína. Ég er ekki fullmenntaður maður, ég hleyp ekkert inn í starf á Íslandi nema það sé þá tengt fótbolta. Maður verður að sjá í framtíðinni hvort maður hafi fjárfest rétt eða ekki.“

Gylfi og blaðamaður í herberginu umrædda, að viðtali loknu.

Svakalegt safn

Gylfi á mikið treyjusafn, búninga sem hann hefur fengið frá öðrum þekktum knattspyrnumönnum og það er ekki hægt að sleppa honum án þess að fá að heyra hvernig safnið varð til. Hvaða treyja er til dæmis í uppáhaldi?

„Walcott var fyrsta treyjan sem ég skipti og fékk. Það var eftir fyrsta leikinn minn í úrvalsdeildinni. Mér finnst rosalega gaman núna að fá skemmtilega treyju, leikmenn sem ég hef spilað með eða einhver stór nöfn. Ég held að það verði skemmtilegt þegar ferlinum lýkur að eiga þetta safn. Mbappe-treyjan er góð, Modric og Hazard eru geggjaðar. Ég held að ef maður ætti að velja eina sem er í uppáhaldi, þá sé það Lampard.“

 

Gylfi að gera eitthvað sem honum finnst ekki svo skemmtilegt, að tala um fótbolta.

Finnst leiðinlegt í viðtölum

Gylfi upplýsir blaðamann, þar sem þeir hafa setið í um klukkustund, að hann sé enginn sérstakur áhugamaður um að mæta í viðtöl en blaðamaður hrósar happi þegar í ljós kemur að Gylfi á þá helst við viðtöl þar sem eingöngu er rætt um knattspyrnu.

„Ef ég á að segja alveg eins og er, þá finnst mér leiðinlegt í viðtölum. Skemmtilegast er að fara í viðtöl þegar ekki er verið að tala um fótbolta, heldur eitthvað allt annað. Þá þessi hefðbundnu viðtöl; hvernig mér hafi fundist leikurinn vera og hvernig stemmingin sé í hópnum. Ég vildi að ég væri að gera eitthvað allt annað. Ég þarf að mæta í flest viðtöl og reyna að gefa eitthvað af mér. Þegar maður er alltaf í þessum viðtölum þá verða svörin bara æfð. Maður fer bara í frasa sem maður man eftir. Ég veit ekki hvað ég hef fengið sömu spurninguna oft og þá er ég með svar á takteinum. Mér finnst skemmtilegt að fara í viðtöl sem eru bara um allt annað en fótbolta. Maður nennir ekki veseni og passar sig að segja ekki eitthvað sem gæti vakið hörð viðbrögð, sem einhverjir hafa eitthvað á móti. Mér var kennt í Reading að tala og viðtalstækni, að passa sig á hinu og þessu.“

Trú og pólitík
Gylfi er nokkuð trúaður og fer með bænir. Þá fylgist hann með pólitík af nokkrum áhuga.

„Ég er alveg trúaður,“ segir Gylfi. „Ég er ekki alveg á sama stalli og Emil Hallfreðsson. Ég er trúaður, ég fer ekki með bænir fyrir leiki en geri það á kvöldin. Ég hef skoðun á pólitík. Eftir því sem maður eldist þá fer maður að pæla meira í því sem er að gerast á Íslandi. Ég hef auðvitað skoðanir á hinu þessu,“ segir Gylfi. Aðspurður um stjórnmálaskoðanir, hvort hann horfi til hægri eða vinstri hugsar Gylfi sig aðeins um. Það er líka komið að kveðjustund. Þessi geðþekki drengur, jarðbundinn og heiðarlegur og okkar fremsti íþróttamaður síðustu ár, hugsar málið. Svarið er stutt og kannski skynsamlegt: „Ég hef mínar skoðanir en þær koma í ljós síðar.“

Fimm þjálfarar í atvinnumennsku:

Brendan Rodgers:
Frábær, mjög góður í mannlegum samskiptum. Hann vildi alltaf fullkomnun á hverri einustu æfingu, harður þar en strax eftir æfingu mjög hress, alltaf klár í að spjalla við alla. Geggjaðar æfingar og gaman að spila fyrir hann, mjög góður þjálfari.

Andre-Villas-Boas:
Mjög fínn karl, allt öðruvísi en Rodgers sem dæmi. Hann var mjög ungur þegar hann var með Tottenham, þegar horft er til aldurs þjálfara. Var mjög góður þjálfari.

Mauricio Pochettino:
Það var gríðarlega erfið ákvörðun að vera kominn til liðs eins og Tottenham og með nýjan stjóra í Pochettino, sem er frábær stjóri. Það var ekki auðveld ákvörðun að fara aftur til Swansea. Ég náði alltaf vel til Pochettino og talaða mikið við hann þegar við spilum við Spurs, hann vildi ekki losna við mig. Ég var á þeim aldri að mig langaði spila fótbolta í hverri viku og Swansea bauð mér það.

Sam Allardyce:
Það er mjög skemmtilegt að spila fyrir hann, skemmtilegur karl en stundum sérstakur. Hann veit hvað þarf að gera til að sækja nógu mikið af stigum til að halda sér í deildinni, margir segja að hann spili ekki skemmtilegan fótbolta. Það eru leikmennirnir sem spila inni á vellinum, varnarlega þá gerir hann lið betri. Með mikla reynslu.

Paul Clement:
Geggjaður, einn af betri þjálfurum sem ég hef haft. Það er ástæða fyrir því að Carlo Ancelotti hefur tekið hann með sér út um allt, geggjaður þjálfari og geggjuð persóna, ég tala enn þá við hann í dag. Það er ekkert slæmt um hann að segja, bara jákvætt.

Fimm samherjar úr atvinnumennsku:

Gareth Bale:
Hann var í ruglinu, hann er með ótrúlegan vinstri fót. Fljótur og sterkur, allt sem toppleikmaður þarf. Hann er búinn að ná gríðarlega langt, hann hefur höndlað pressuna sem fylgir því að spila með Real Madrid, hún er mikil.

Wayne Rooney:
Geggjað að fá að spila með honum, leikmaður sem maður horfði á þegar maður var yngri. Var í United-liði sem maður fylgdist með og hélt með. Heiður að spila með honum, geggjað að fá að spila með honum og kynnast því hvernig hann er innan sem utan vallar.

Roberto Firmino:
Hann var mjög ungur, hann hefur breyst eitthvað í dag. Hann talaði ekki mikla ensku, mjög flott að sjá hversu langt hann hefur náð.

Emmanuel Adebayor:
Svakalegur leikmaður, þegar hann er upp á sitt besta, þá er ekki hægt að stöðva hann. Stór, sterkur og fljótur. Getur skorað mörk af öllum gerðum; skot, skallar og hvað sem það er. Hefur átt sturlaðan feril.

Harry Kane:
Svakaleg breyting á honum frá því að hann var að koma upp hjá Tottenham. Í dag er hann bara félagið, hann stjórnar því liði. Við erum í fínu sambandi í dag, toppgaur, við spiluðum oft golf saman og gerum enn. Hann er með Tottenham á herðum sér og enska landsliðið í raun líka, ef þú horfir á hann þá myndir þú ekki halda að hann væri einn sá besti í heimi. Klárar vel og heldur boltanum vel, tímasetningar á hlaupum er hann með á hreinu. Alltaf á réttum stað.

Fimm samherjar úr landsliðinu:

Ljósmynd: DV/Hanna

Rúrik Gíslason:
Hann hefur gaman af Instagram, hann er alltaf í góðu skapi, gaman að vera í kringum hann. Hann hefur sjálfur verið að sjá að hann er allt öðruvísi týpa en fólk myndi halda, frábær vinur og gaman að vera á sama stað og hann.

Jóhann Berg Guðmundsson:
Hann getur verið mjög erfiður þegar það er þungt yfir honum, toppmaður og býr rétt hjá mér í dag. Hann er einn af mínum betri vinum í landsliðinu, það þarf stundum að rífa hann í gang. Það er smá haugur í Jóa.

Aron Einar Gunnarsson:
Okkar fyrirliði, hann er bara fullkominn fyrir það að vera fyrirliði og sú týpa sem dregur liðin áfram. Toppmaður sem þú getur alltaf treyst, þú getur alltaf farið til hans í vandræðum. Er leiðtogi Íslands og Cardiff.

Alfreð Finnbogason:
Okkar besti maður í að klára færi, hann skorar 99,999 prósent af sínum mörkum í teignum. Alltaf réttur maður á réttum stað, hann hefur verið óheppinn með meiðsli. Ef hann er heill, þá skorar hann alltaf mörk. Hann er ekkert fljótasti maður í heimi eða sá sterkasti.

Emil Hallfreðsson
Gæðablóð, þú finnur ekki meiri toppmann. Ótrúlega hlý manneskja, jákvæðni í kringum hann og það er gaman að vera í kringum þannig fólk. Hefur verið atvinnumaður og er algjör Ítali. Maður sér það á honum, ég veit ekki hvað er hægt að segja slæmt um hann.

Hraðaspurningar:


Skemmtilegasti völlur að spila á?
Það er geggjað að spila á San Siro en ég held að Old Trafford sé völlurinn, maður skorar alltaf þar. Sem gamall stuðningsmaður United þá er það sérstakt. Það var fyrsti völlurinn sem ég fór á sem ungur drengur, að fara úr því að vera 9 ára gamall og í að spila þar á hverju ári er gaman.

Besti samherji?
Gareth Bale.

Erfiðasti andstæðingur?
Hazard, hann er einn sá erfiðasti. Hann snýr bara á þig og er farinn. Yaya Toure, hann er svo stór og sterkur, góður með boltann líka. Tveir ólíkir.

Leiðinlegasti andstæðingur?
Lee Cattermole, hann var alltaf í kringum mig sem djúpur miðjumaður. Hann var með óþarfa, hann á víst að vera toppmaður eftir því sem Jordan Pickford segir. Það var samt ekki gaman að mæta honum.

Besta stundin á ferlinum?
Skora á HM.

Erfiðasta stundin?
Að klikka á vítaspyrnu á HM.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Hrun Liverpool er áhugavert – Svona var staðan í lok janúar þegar Klopp kynnti áform sín

Hrun Liverpool er áhugavert – Svona var staðan í lok janúar þegar Klopp kynnti áform sín
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Chelsea skoðar að reka Pochettino – Þrír menn á lista

Chelsea skoðar að reka Pochettino – Þrír menn á lista
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Solskjær með áhugavert tilboð á borði sínu

Solskjær með áhugavert tilboð á borði sínu
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Pungurinn virkar ennþá hjá Giggs – Fimmtugur og er að verða faðir

Pungurinn virkar ennþá hjá Giggs – Fimmtugur og er að verða faðir
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Mun ekki vinna með Kristian – Launakröfurnar alltof háar

Mun ekki vinna með Kristian – Launakröfurnar alltof háar
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Slot telur nánast öruggt að tilboði Liverpool verði tekið

Slot telur nánast öruggt að tilboði Liverpool verði tekið
433Sport
Í gær

Mjólkurbikarinn: Breiðablik óvænt úr leik

Mjólkurbikarinn: Breiðablik óvænt úr leik
433Sport
Í gær

England: Meistararnir í engum vandræðum með Brighton

England: Meistararnir í engum vandræðum með Brighton