Íslenski landsliðsframherjinn Viðar Örn Kjartansson er genginn í raðir Rostov í Rússlandi.
Þetta var staðfest í dag en Viðar er fjórði Íslendingurinn til að skrifa undir hjá félaginu.
Viðar kemur til Rostov frá liði Maccabi Tel Aviv í Ísrael þar sem hann var duglegur að skora síðustu tvö ár.
Viðar er 28 ára gamall sóknarmaður en hann vildi sjálfur komast burt frá Maccabi í sumarglugganum.
Lið á Englandi sýndu Viðari áhuga en hann ákvað að taka stökkið til Rússlands eins og margir landar hans.
Björn Bergmann Sigurðarson, Sverrir Ingi Ingason og Ragnar Sigurðsson eru allir á mála hjá Rostov.